Færsluflokkur: Ferðalög

Og svo var það sunnudagsrúnturinn


Glymur

Sent inn á flickr.com bjogginn

Ekki var nóg að skella sér á Snæfellsnesið heldur ákvað ég á síðustu stundu þegar ég var á heimleið að keyra nú inn Hvalfjörðinn. Þegar ég nálgaðist gamla Botnsskála þá datt mér allt í einu í hug að það væri nú gaman að kíkja á Glym gamla (aldrei séð hann áður). Ég og börnin lögðum af stað um klukkan 14:30 og héldum sem leið lá eftir gulu steinunum (einhver merking á gönguleiðinni hér og þar). Þegar við nálguðumst gljúfrið þá fór nú eitthvað lítið fyrir þeim, allavega var engin regla á millibili og svo eftir mikla leit þá fundust þeir stundum. Allavega, þá ákváðum við að kíkja upp austan megin vegna þess að vestan megin sést lítið í fossinn. Við tók heljar klifur, á einum stað fórum við upp nokkuð erfiða skriðu (í ljós kom að göngustígurinn var um 30-40 metra fyrir sunnan hana). Þá tók við enn meiri leit að stígum til að fylgja. Enduðum í einu gili þar sem ekki var hægt að komast upp úr nema á betri skóbúnaði (ég var á ódýru skódrasli úr Europris). Eftir nokkurn tíma þá komumst við loks upp að fossinum, eða fórum upp að síðasta útsýnisstaðnum. Tókum nokkrar myndir þar og ég sendi eina beint inn á Facebook með símanum. Lögðum af stað niður að bíl aftur og komum þangað rétt rúmlega fimm.

Var hissa á hversu mikil umferð var þarna, sá örugglega hátt í hundrað manns á ferð annað hvort upp eða niður.

Það er þreyttur og sæll ferðalangur sem skrifar þetta blogg, ánægður með hversu gaman krakkarnir höfðu af þessari helgi.


Nettur laugardagsbíltúr


Systkinin

Originally uploaded by bjogginn

Byrjuðum daginn á því að keyra vestur í Grundarfjörð, fengum okkur að borða þar á Kaffi 59. Fínar pizzur sem runnu ágætlega niður með gosdrykkjum. Þaðan lá leiðin í vesturátt, ókum síðan yfir Fróðárheiðina og stoppuðum aðeins á Búðum, lékum okkur aðeins í fjörunni þar. Þaðan lá leiðin að Arnarstapa og þar tók það sama við, göngutúr og leikur. Fórum svo að Hellnum, krakkarnir léku sér aðeins í fjörugrjótinu þar og rennblotnuðu náttúrulega, fengum okkur síðan kaffi og meððí í litla kaffihúsinu á Hellnum. Þegar allir voru mettir var ákveðið að halda áfram og fórum við niður á Djúpalónssand og þaðan gengum við gegnum hraunið út í Dritvík, komum við í völundarhúsinu við Dritvík og fórum svo niður í víkina og þar tók ég þessa mynd af börnunum. Gengum síðan til baka og niður í fjöruna á Djúpalónssandi, þar var nokkuð mikið brim og krakkarnir fóru í kapp við öldurnar, þ.e. að passa sig á að þær náðu þeim ekki og gekk það bara nokkuð vel. Keyrðum síðan sem leið lá út á Öndverðarnes og Svörtuloft, skoðuðum aðeins vitana þar og húsarústir á Öndverðarnesi sem og niðurgrafna brunninn Fálka. Ókum svo gegnum Hellissand og Rif, sýndi þeim bryggjuna sem ég sigldi frá sumarið '95 þegar ég var á trillu þar. Ókum svo inn í Ólafsvík, fengum okkur pizzur á Hobbitanum (gamli grillskálinn) og enduðum svo á að keyra í Borgarnesið. Vorum komin þangað rúmum 12 tímum eftir brottför þaðan í morgun.
Þetta er semsagt búinn að vera frábær dagur og ég var ánægður að sjá hvað krakkarnir skemmtu sér við þetta.

Fleiri myndir á http://www.flickr.com/photos/bjogginn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband